Print

Guðsdýrkun í Íslam

Written by Administrator. Posted in ROOT

Guðsdýrkun í Íslam - hvað merkir það? Ýmsir misskilja hugtakið og álíta það einskorðast við að rækja tilteknar trúarathafnir svo sem bænir, föstu, ölmusugjafir og þess háttar. En það er aðeins hluti þess sem átt er við með guðsdýrkun eða guðsþjónustu. Hefðbundna skilgreiningin nær yfir hvað eina í gjörðum einstaklingsins og mætti orða svo: Guðsdýrkun felur í sér alla hugsun, orð og athafnir sem Guði eru þóknanlegar. Og þá er að sjálfsögðu átt við bæði trúarathafnir sem og samfélagslegar athafnir og framlag einstaklinga til velfarnaðar náunga síns.

Íslam lítur á manninn sem fulltrúa heildar. Honum ber að fela sig Guði algjörlega á vald, eins og Kóraninn lagði fyrir Múhammeð: “Seg (ó, Múhammeð): “Bænir mínar og fórn og líf mitt allt og dauði minn helgast Guði. Enginn er honum jafn.. Á þennan veg er mér fyrir skipað sem hinum fyrsta af múslímum.”” (6, 161-162.) Afleiðing þess að gangast þannig undir vilja Guðs er sú, að maðurinn leitast við að laga gjörðir sínar að vilja þess sem hann lýtur. Þar sem Íslam er lífsmáti eiga fylgjendur þess að haga lífi sínu í samræmi við kenningar Íslams í sérhverju tilliti, bæði trúarsiðum og öðrum athöfnum. Þetta hljómar e.t.v. undarlega í eyrum einhverra sem líta svo á, að trúin sé persónulegt samband einstaklingsins við Guð og hafi ekki önnur áhrif á gjörðir mannsins en iðkun tiltekinna trúarathafna.

Íslam leggur í raun ekki mikið upp úr trúarathöfnunum einum sér ef þær eru yfirborðskenndar og án áhrifa á innra líf iðkandans. Kóraninn beinir orðum til hinna trúuðu (múslíma) og nágranna þeirra meðal fólks Bókarinnar (kristinna og gyðinga), sem deildu við þá þegar bænaráttinni (Qibla) var breytt:
“Það varðar ekki guðrækni, hvort ásýnd er snúið til austurs eða vesturs. Guðrækinn er sá sem trúir á Guð og hinn Efsta Dag, á englana, Ritningarnar og spámennina, og gefur, af ást á Guði, eigur sínar ættingjum, munaðar-lausum og fátækum, förumönnum og ölmusumönnum, og til lausnar föngum; og sá sem rækir bænir sínar og geldur fátækraskatt; sá sem stendur við loforð sín og er þolgóður í raun, og í mótlæti, og á stríðstímum. Þessir eru að sönnu guðræknir, og slíkir eru hinir réttlátu.” (2,177.)

Þær gjörðir sem taldar eru upp í versinu hér á undan eru gjörðir réttlætis og þær eru aðeins hluti af guðsdýrkun. Spámaðurinn sagði um trúna - sem er grundvöllur guðsdýrkunar - “að hún birtist á meira en sextíu þrepum. Æðst þeirra er trúin á einn Guð, þ.e. að enginn er Guð nema Guð, og neðsta þrepið væri að ryðja tálmum og óhroða úr vegi annarra.”
Heiðarlegt starf er þáttur guðsdýrkunar í Íslam. Spámaðurinn sagði: “Þeim sem leggst þreyttur til hvíldar að afloknu dagsverki mun Guð fyrirgefa syndir hans.” Að leita þekkingar er eitt æðsta form guðsdýrkunar. Spámaðurinn sagði fylgjendum sínum: “Að afla sér þekkingar er (trúar)skylda hvers múslíma..” Háttprýði og samvinna er guðsdýrkun þegar það er gert með Guð í huga, eins og spámaðurinn sagði: “Að taka brosandi á móti vini er góðverk, að hjálpa manni við að klyfja burðardýr er góðverk, og að ausa vatni í fötu náungans er góðverk.”

Það er eftirtektarvert að jafnvel það að vinna skyldustörf sín er álitinn þáttur guðsdýrkunar. Spámaðurinn sagði að hvað eina sem maðurinn eyddi til framfærslu fjölskyldu sinnar væri ölmusa: “Honum verður launað það ef peningarnir voru heiðarlega fengnir.” Góðvild sýnd fjölskyldu er samkvæmt orðum spámannsins líka þáttur guðsdýrkunar. Og jafnvel athafnir, sem hugnast okkur mikið, eru hluti af guðsdýrkun ef þær eru samkvæmt fyrirmælum trúarinnar. Spámaðurinn sagði félögum sínum að þeir fengju laun fyrir kynlíf sitt með eiginkonunum. Félagarnir urðu mjög undrandi og spurðu: “Hvernig má það vera að við fáum laun fyrir það sem okkur hugnast svo vel sjálfum?” Spámaðurinn spurði þá: “Ef þið fullnægið ástríðum ykkar með ólöglegum hætti, haldið þið þá ekki að ykkur yrði refsað fyrir það?” Þeir svöruðu játandi. “Á sama hátt,” sagði hann, “fáið þið laun fyrir að fullnægja ástríðunum á löglegan hátt með eiginkonu.” Með þessu er átt við að það sé þáttur guðsdýrkunar.

Íslam lítur ekki á kynlíf sem eitthvað óhreint sem beri að forðast. Það er þá aðeins óhreint og syndsamlegt ef það á sér stað utan hjónabandsins.
Ljóst er af því sem sagt hefur verið, að í Íslam er guðsdýrkun rúmt hugtak sem felur í sér allar nytsamar og jákvæðar athafnir manna. Það er að sjálfsögðu í samræmi við hið víðfeðma eðli Íslams sem lífsmáta. Það skipuleggur mannlífið á öllum sviðum þess, einkalífið, félagslífið, stjórnmál og andleg mál. Íslam varðar veginn til minnstu smáatriða í öllum þessum efnum. Og sé þeim forskriftum fylgt út í æsar, hlýðnast múslíminn fyrir-mælum Íslams á því tiltekna sviði. Það felst ekki svo lítil brýning og uppörvun í því að gera sér ljóst að Guð lítur á allar réttar athafnir manna sem hluta guðsdýrkunar. Það ætti að koma einstaklingnum til að leitast ávallt við að leysa verk sín eins vel af hendi og hann mögulega getur, hvort sem yfirboðari hans sér til hans eða ekki. Það er alltaf nálægur einn Yfirboðari sem allt veit og sér, og það er Guð.

Þó við höfum byrjað á þeirri guðsdýrkun sem stendur utan formlegra trúarathafna merkir það ekki að við vanmetum mikilvægi þeirra. Ef trúarathafnirnar eru iðkaðar með réttu hugarfari göfga þær manninn bæði siðferðislega og andlega og leggja honum lið til góðra verka á öllum sviðum lífsins í samræmi við leiðsögn Guðs.

Af trúarathöfnunum skipta daglegu bænirnar (SALAH) höfuðmáli af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi eru þær kennimark múslimans. Í öðru lagi verja þær hann freistingum og syndum með því að leggja honum til beint samband við Skaparann fimm sinnum á dag, þar sem hann endurnýjar sáttmála sinn við Guð og leitar stöðugt leiðsagnar Hans: “Þig einan tignum vér og beiðumst hjálpar af Þér einum. Leið þú oss á hinn rétta veg.” (1.4-5.) Daglegu bænirnar eru þannig fyrsta raunverulega staðfesting trúarinnar og grundvallarskilyrði fyrir velgengni trúaðra. “Blessaðir verða hinir trúuðu, sem eru auðmjúkir í bænum sinum.” (23,1-2.) Spámaðurinn ítrekaði þetta á eftirfarandi hátt: “Þeim sem bera fram daglegu bænirnar á réttum tíma og af kostgæfni, verða þær ljós á vegum þeirra, sönnun trúar þeirra og tilefni frelsunar á dómsdegi.”

Á eftir daglegu bænunum kemur fátækraskatturinn (ZAKAH) sem líka er mikilvæg stoð Íslams. Í Kóraninum eru SALAH og ZAKAH iðulega nefnd samtímis. ZAKAH er eins og SALAH vitnisburður trúarinnar, staðfesting þess að Guð er sá sem allir hlutir í öllum heimi tilheyra. Því sem manninum áskotnast er honum trúað fyrir sem fjárhaldsmanni til að verja samkvæmt þeim fyrirmælum sem honum hafa verið sett. “Trúið á Guð og sendiboða Hans, og gefið af því sem Hann hefur látið yður í arf.” (57,7.) Þannig er ZAKAH þáttur guðsdýrkunar sem, eins og bænirnar, færir hinn trúaða nær Drottni sínum. En auk þess er ZAKAH aðferð til að jafna auðæfum og minnka mun milli stétta og samfélagshópa. ZAKAH leggur því góðan skerf til stöðugleika í þjóðfélaginu. Það hreinsar sál hins ríka af sjálfselsku og sál hins fátæka af öfund og gremju gegn samfélaginu, lokar farvegum stéttarígs en greiðir fyrir bræðralagi og einingu. Þetta jafnvægi byggist ekki eingöngu á samþykki hins ríka, heldur grundvallast á fastmótuðum rétti sem sóttur er á hendur honum, með valdboði ef þörf krefur.

SIYAM (fasta í Ramadanmánuði) er enn ein stoð Íslams. Fastan gegnir því hlutverki að hreinsa múslímann “hið innra” á sama hátt og aðrir þættir íslamskra laga (SHARIA) hreinsa hann “hið ytra”. Við slíka hreinsun skilst honum betur hið sanna og góða og lærir að forðast það sem rangt er og illt. “Ó, þér trúaðir, yður er fyrir sett að fasta, svo sem það var þeim fyrir sett, er á undan yður voru, til þess að þér megið réttlátir verða.” (2,183.) Spámaðurinn sagði um þann sem fastar og neitar sér um mat, drykk og kynlíf Guðs vegna, að laun hans yrðu í samræmi við ríkulegt örlæti Guðs. Fastan ýtir við samvisku einstaklingsins og gefur honum færi á sameiginlegri og samtíma reynslu alls samfélagsins, sem ljær hverjum og einum aukinn styrk. Þá gefur fastan vél mannslíkamans, sem iðulega er ofkeyrð, skyldubundna hvíld heilan mánuð. Enn fremur minnir fastan einstaklinginn á þá sem eru án brýnustu lífsnauðsynja allt árið, kannski allt lífið. Hann gerir sér betur grein fyrir þjáningum annarra og verr settra meðbræðra sinna og samkennd hans glæðist.

Að endingu komum við að AL HADSJ (pílagrímsferðinni til húss Guðs í Mekku.) Þessi mikilvæga stoð Íslams opinberar sérstaka einingu og upprætir ýmislegan mismun. Múslímar frá öllum heimshornum, klæddir á sama hátt, svara kalli HADSJ einum rómi á sömu tungu: “LABBAIK, ALLAHUMMA, LABBAIK!” (Hér er ég til þjónustu þinnar, Drottinn minn!) HADSJ er prófraun sjálfsagans, ekki er aðeins helgum hlutum sýnd sú virðing sem þeim ber, jarðargróður og fuglar eru einnig friðhelgir, allt líf hefur grið. “Þeim sem heiðra helgisiðu Guðs mun farnast vel á vegum Herra þíns.” (22,30). “Sá sem heiðrar hin helgu teikn Guðs sýnir guðrækni hjarta síns.” (22,32.) Pílagrímsferðin gefur múslímum allra þjóða og stétta tækifæri til að koma saman árlega á miklu þingi. Staður og stund voru ákveðin af Allah, hinum eina Guði þeirra. Múslímum öllum er þar boðið til þátttöku. Enginn hefur rétt til að meina öðrum aðgang. Sérhverjum múslíma sem þangað kemur er tryggt öryggi og friðhelgi svo fremi hann níðist ekki sjálfur á friðhelgi staðarins.

Íslamska guðsdýrkunin, bæði á sviði formlegra trúarathafna og utan þeirra, þjálfar einstaklinginn með þeim hætti að hann fyllist sífellt meiri kærleika til skapara síns og öðlast andlegan kraft og óbilandi vilja til að uppræta hvers konar illsku og áþján úr samfélagi mannanna og láta orð Guðs verða ríkjandi í heiminum.

-----------------------

Guðsdýrkun í Íslam er þýðing á Concept of Worship in Islam í ritröð um Íslam sem gefin er út af WAMY (World Assembly of Muslim Youth) í Riyad, Saudi Arabíu.