Print

Pílagrímsferð til Mekku

Written by Administrator. Posted in ROOT

Pílagrímsferð (Hajj á arabísku) til Mekku í Sádi Arabíu er ein af fimm stoðum Íslams og eiga allir múslimar sem geta (fjárhagslega og heilsufarslega) að fara í pílagrímsferð a.m.k. einu sinni á ævinni. Pílagrímsferðartíminn er einu sinni á ári en þar sem íslamska árið byggist á gangi tunglsins færist tíminn til á hverju ári um u.þ.b. ellefu daga. Pílagrímstíminn getur því lent á hvaða árstíma sem er og er í ár (2004) í lok janúar. Á hverju ári flykkist heilmikill fjöldi múslima alls staðar að úr heiminum í pílagrímsferðina og er hefur heildarfjöldinn síðustu ár verið um eða yfir tvær milljónir. Fjöldi Íslendinga hefur upplifað pílagrímsferðina utanfrá og þá aðallega í gegnum vinnu í pílagrímsflugi en mun færri hafa haft tækifæri til að fara í pílagrímsferðina sjálfa, því hún er aðeins opin fyrir múslima.

Fyrsta moskanÞað var í febrúar 2001 sem ég fór í mína pílagrímsferð til Mekku. Lengi var tvísýnt með hvort að ég kæmist í ferðina eða ekki þar sem illa gekk að fá vegabréfsáritun. En nokkrum dögum fyrir brottför fékkst hún loks og fór ég með einu af síðustu pílagrímsflugunum til Medínu, en þar dvaldi ég nokkra daga áður en pílagrímsferðin sjálf hófst. Medína (arabíska fyrir 'borg' en fullu nafni nefnist borgin Medina al-Munawarah, eða Borgin ljómandi) er sú borg sem Múhammeð fór til eftir að hafa verið hrakinn burt frá Mekku (en hann náði völdum yfir henni aftur síðar) og er Medína því sú borg þar sem Íslam réð fyrst ríkjum og þar sem Múhammeð spámaður bjó síðustu ár ævi sinnar. Í Medínu var fyrsta moskan reist og þar er einnig að finna mosku spámannsins. Það var sömuleiðis í Medínu sem Múhammeð lést og var jarðaður. Pílagrímar leggja því flestir leið sína til Medínu fyrir eða eftir pílagrímsferðina sjálfa, þó að slík heimsókn teljist ekki hluti af sjálfri pílagrímsferðinni. Við dvöldum fjóra daga þarna áður en sjálf pílagrímsferðin hófst. moska spámannsinsMestum tímanum var eytt í moskunni en þarna gafst einnig tækifæri til að leika túrista: rölta um markaðinn og skoða sögulega staði, eins og t.d. þar sem fyrsta moskan var reist og þar sem ein af helstu orrustum múslima gegn Mekkubúum fór fram.

Eftir fjóra daga í Medínu hófst pílagrímsferðin fyrir alvöru. Pílagrímafötin voru tekin fram og haldið áleiðis til Mekku. Á meðan á pílagrímsförinni stendur eru pílagrímar í því sem kallast ihram. Fyrir karla þýðir það sérstakur klæðnaður sem ekki er saumaður og samanstendur af tveimur hvítum "handklæðum" sem vafið er um líkamann en þar að auki þýðir það að allir pílagrímar mega ekki nota ilmvatn eða hreinlætisvörur með ilmi, stunda kynlíf, drepa dýr (nema til að bjarga lífi sínu), klippa hár eða neglur. Einnig er konum bannað að vera með andlitsbæjur eða hanska.

Um leið og við komum til Mekku fórum við í moskuna þar sem Kaaba er (fyrsta hús Guðs skv. Íslam, byggt upprunalega af Abraham). Viðbrögð fólks þegar það sér Kaaba í fyrsta skiptið eru mjög mismunandi. Fyrir suma er það mjög tilfinningaþrungin stund og margir bresta í grát. Fyrir mig var það eins og að koma heim, eins og ég hefði verið þarna áður þó að ég væri að koma þarna í fyrsta skiptið. Pílagrími í ihramÍ Kaaba gerðum við fyrsta af þremur tawaf en þá er gengið sjö sinnum í kringum Kaaba og farið á meðan með bænir og Guð ákallaður. Þegar við komum á staðinn var mið nótt og flestir pílagrímarnir höfðu lokið við að gera tawaf og var moskan því hálftóm, ólíkt því sem ég átti von á þar sem allt sem ég hafði heyrt um pílagrímsferðina var um troðning og mannfjölda. Þetta var því mjög sérstök stund þar sem við gátum notið þess að vera þarna án þess að hafa áhyggjur af troðningi og gátum farið alveg upp að Kaaba og meira að segja kysst svarta steininn sem sést í á einu horni Kaaba. Að loknu þessu fyrsta tawaf tók við næsta athöfn: að fara sjö sinnum á milli tveggja hæða sem kallast Safa og Marwa. Þetta er gert í minningu Hajar, konu Abrahams og móður Ísmaels, en hún var ein í eyðimörkinni með Ísmael og hljóp sjö sinnum á milli hæðanna í örvæntingarfullri leit að vatni, sem hún síðan fann, og það er því viðeigandi að eftir að hafa lokið við að fara á milli Safa og Marwa drekkur maður úr Zam Zam lindinni sem hún fann.

Eftir að hafa lokið þessum athöfnum héldum við áleiðis til staðar sem kallast Arafa og er fyrir utan Mekku. Þar er aðaldagur pílagrímsferðarinnar og eru allir pílagrímar þar á sama tíma. Á staðnum eru reistar miklar tjaldbúðir og hafast flestir við í tjöldum (en þeir fátækustu eru þó bara úti á götu). Frá hádegi til sólseturs er "staðið" á Arafa og dagurinn notaður til að biðja til Guðs. Margir halda sig bara í tjöldunum og biðja þar en aðrir hópast saman við Rahma-hæðina þar sem Múhammeð spámaður hélt síðustu ræðuna sína í pílagrímsferðinni sama ár og hann lést. Rahma-hæðin á ArafaYfirleitt eru sýndar myndir frá þessum stað þegar fjallað er um pílagrímsferðina í fjölmiðlum og var ég mjög spennt að fara þangað og upplifa þetta. Yfirgaf ég því samferðarfólk mitt, sem hélt sig í tjöldunum, og hélt einsömul áleiðis þangað og var þetta alveg mögnuð upplifun að standa þarna innan um fjölda fólks, alls staðar að úr heiminum, og biðja til Guðs með þeim. Pílagrímarnir eru á Arafa fram til sólseturs og er þá haldið áleiðis til næsta staðar þar sem dvalið er yfir nóttina og þar eru valdir litlir steinar til að við athafnirnar næstu daga. Hópurinn minn endaði með því að eyða þeirri nótt í rútunni að mjaka okkur áfram í gegnum þennan stað, frá upphafi til enda, og áleiðis til næsta áfangastaðar: Mína. Í Mínu eru aðrar stórar tjaldbúðir og þar dvelja flestir í nokkra daga í lok pílagrímsferðarinnar. Þarna eru steinsúlurnar þrjár sem eru tákn fyrir djöfulinn og fara allir pílagrímar að þeim og kasta sjö steinum í hverja súlu og táknar þessi athöfn baráttu hvers og eins gegn hinu illa. Þetta er gert þrjá daga í röð, en fyrsta daginn er aðeins kastað steinum í eina súlu, þá stærstu. Okkar fyrsta steinkasti seinkaði þó aðeins, því að búið var að loka svæðinu þegar við komum þangað vegna einhverra mótmæla á vegum hóps frá Íran. Héldum við því í staðinn áfram til Mekku þar sem við gerðum annað tawaf pílagrímsferðarinnar og síðan áfram til Jeddah þar sem við gátum farið úr ihram eftir að hafa slátrað lambi (eða réttara sagt borgað fyrir að láta slátra lambi og dreif kjötinu til fátækra) og klippt hár okkar, en þetta tvennt þarf að gera áður en maður fer úr ihram. Seinnipartinn snerum við síðan aftur til Mina og gátum þá loksins "grýtt djöfulinn". Næstu tvo daga var það sama gert, við héldum okkur i tjaldbúðum og fórum einu sinni á dag til að grýta djöfulinn (allar þrjár súlurnar). Ég hafði heyrt margar hryllingssögur um þessa athöfn, um troðninginn og æsinginn sem kæmi yfir suma. En enn og aftur var mín upplifun á aðra leið, hvorki fannst mér troðningurinn það slæmur né erfitt að framkvæma athöfnina sjálfu. Að vísu sá maður einstaka skó og aðra hluti þjóta í áttina að súlunum þegar einhverjir gleymdu sér í æsingnum og nokkrar steinvölur villtust af leið og lentu á mér í staðinn fyrir á súlunum, en það var ekkert alvarlegt. Eftir dagana þrjá í Mínu héldum við enn einu sinni til Mekku og gerðum okkar síðasta tawaf og var pílagrímsferðinni þá lokið. Flestir dvelja þó einhvern tíma í Sádi Arabíu eftir að pílagrímsferðinni líkur því að það tekur nokkrar vikur að koma öllum mannskapnum út úr landinu aftur. Við voru þó með sæti á einu fyrsta fluginu frá Sádi Arabíu og vorum því bara einn dag á búðarrápi í Jeddah áður en við héldum heim á leið. Sú skemmtilega tilviljun átti sér síðan stað á leiðinni heim að við flugum vid med Atlanta! Ég sá nafnið á flugvélinni úr rútunni sem keyrði okkur upp að vélinni en á henni stóð Capt. Jóhannes Snorrason og ég kallaði náttúrlega til Ómars að vélin væri íslensk og síðan kom í ljós að við værum að fljúga með Atlanta. Samt var bara ein íslensk stelpa í áhöfninni, en ég lét vita af mér og hún kom síðan og spjalladi við mig. Sem sagt mjög góður endi á góðri ferð....það sannast alltaf betur og betur að Íslendingar eru alls staðar:-)