Print

Siðareglur í Íslam

Written by Administrator. Posted in ROOT

Íslam boðar nokkur grundvallarmannréttindi sem ber að hlíta og virða við allar aðstæður. Til að tryggja að þessi réttindi séu haldin í heiðri setur Íslam þeim ekki aðeins stoð í lögum heldur jafnframt virkar siðareglur. Hvað eina sem leiðir til velfarnaðar einstaklingsins eða samfélagsins er siðferðilega gott í Íslam, en allt sem skaðar er siðferðilega illt. Íslam leggur áherslu á kærleika til Guðs og manna og varar við einstrengingslegri formfestu. Í Kóraninum stendur: “Það varðar ekki guðrækni hvort ásýnd er snúið til austurs eða vesturs. Guðrækinn er sá sem trúir á Guð og hinn Efsta Dag, á englana, Ritningarnar og spámennina, og gefur, af ást á Guði, eigur sínar ættingjum, munaðarlausum og fátækum, förumönnum og ölmusumönnum, og til lausnar föngum; og sá sem rækir bænir sínar og geldur fátækraskatt, sá sem stendur við loforð sín og er þolgóður í raun, og í mótlæti, og á stríðstímum. Þessir eru að sönnu guðræknir, og slíkir eru hinir réttlátu.” (2.17). Þarna er falleg lýsing á réttlátum og guðhræddum manni. Hann á að fara að hollum reglum og fyrirmælum, en það er kærleikurinn til Guðs og manna sem mestu skiptir.

Aðalatriðin eru fjögur:
a) Trú okkar á að vera sönn og einlæg.
b) Við eigum að sýna hana í góðverkum við náungann.
c) Við eigum að vera löghlýðnir borgarar og stuðla að almannaheill.
d) Við eigum að vera æðrulaus og staðföst á hverju sem gengur.

Þetta er sá mælikvarði sem lagður er á hegðun, þegar hún er dæmd rétt eða röng. Íslam brýnir fyrir manninum að það er Guð sem hann á samskipti við, Guð sem sér hann ávallt og alls staðar. Hann geti dulist fyrir öllum heiminum en ekki fyrir Guði, blekkt sérhvern mann en aldrei Guð, hann geti flúið undan refsingu manna en aldrei umflúið dóm Guðs.
Með því að gera velþóknun Guðs þannig að höfuðmarkmiði lífsins leggur Íslam þá æðstu mælistiku á siðgæði sem hugsast getur. Það hlýtur að hvetja manninn til sífellt meiri siðferðisþroska. Með því að gera guðlega opinberun að aðaluppsprettu þekkingarinnar gefur Íslam siðgæðismati festu og stöðugleika sem veitir svigrúm til ákveðinnar tilslökunar eða aðlögunar, án þess þó að það leiði til rangtúlkunar eða útþynningar á boðskapnum.
Guðsást og guðsótti verða ástæður réttar breytni í Íslam án þess að ytri þrýstingur þurfi að koma til. Sá sem trúir á Guð og dómsdag leggur sig fram af einlægni og alvöru, finnur sig knúinn til þess sem rétt er.
Íslam setur ekki fram neinar siðareglur undir yfirskini frumleika eða nýjungagirni, né reynir að minnka vægi viðtekinna siðaboða. Það leggur ekki heldur ofuráherslu á tilteknar siðareglur á kostnað annarra. Öllum viðurkenndum siðgæðisgildum er haldið til haga og þeim skipað á réttan stað í jafnvægi og réttum hlutföllum í heildarmynstrinu. Siðareglurnar ná bæði til einkalífs og samfélags, varða fjölskyldubönd og borgaralega hegðun, þátttöku á opinberum vettvangi, í stjórnmálum, á sviði efnahagsmála, lagasetninga, mennta- og félgsmála. Siðaboðin teygja arma sína allt frá heimilislífinu og út í þjóðfélagið, frá matborðinu að orustuvellinum, frá vöggu til grafar, bókstaflega talað. Ekkert svið mannlífsins er undanþegið hinu altæka og víðfeðma siðakerfi Íslams. Siðgæði er sett í öndvegi og þess gætt að athafnir mannlífsins stjórnist ekki af sjálfhyggju og eiginhagsmunum heldur lúti réttum hegðunarreglum.
Íslam leggur manninum lífsreglur sem byggjast á því sem gott er og að afstýra illu. Fólk er ekki aðeins hvatt til að rækja góðar dyggðir heldur einnig að rótfesta þær en uppræta ranga breytni, að hvetja til góðs en banna illt. Samviskan á að hafa úrslitavaldið, lestirnir mega aldrei bera sigurorð af dyggðunum. Þeir sem hlýðnast þessu kalli tilheyra samfélagi múslíma (UMMAH). Og hlutverk þessa samfélags er að vinna skipulega að því að hvetja til góðra verka og festa þau í sessi, en berjast gegn illum verkum og uppræta þau.
Hér á eftir verða taldar upp nokkrar grundvallar siðareglur á ýmsum sviðum mannlífsins. Þær ná til ýmissa greina persónulegrar breytni og félagslegrar skyldu.

Guðsótti
Guðsóttinn er æðsta kennimark múslímans samkvæmt Kóraninum. “Sá er yðar göfugastur í augum Guðs, sem óttast Hann mest.” (49,13).
Auðmýkt, hógværð, taumhald á ástríðum og girndum, sannsögli, heiðarleiki, þolinmæði, staðfesta og orðheldni eru meðal þeirra eiginda sem Kóraninn leggur hvað mesta áherslu á.. Þar stendur: “Og Guð elskar hina þrautgóðu.” (2,146).
“Keppið hver við annan um fyrirgefningu Herra yðar og um Paradís svo mikla sem himna og jörð, þá Paradís sem búin er réttlátum, þeim sem gefa ölmusu jafnt í meðlæti og mótlæti, þeim sem hemja reiði sína og fyrirgefa náunga sínum, - Guð elskar þá sem gott gera.” (3,133-134).
“Vertu staðfastur í bæninni, bjóð þú hið góða, og banna hið illa. Taktu með þolgæði hverju því sem að höndum ber. Það er skylda sem á öllum hvílir. Sýndu engum manni fyrirlitningu, og stíg þú eigi á jörðina með drambi. Guði er ekki hlýtt til hinna hrokafullu og hégómlegu. Gakk þú fram í hógværð, og talaðu lágum rómi. Af allri rödd er rymur asnans mest viðurstyggð.” (31,18-19.)
Eftirfarandi orð spámannsins gefa mynd af réttri breytni múslímans: “Drottinn minn hefur gefið mér níu fyrirmæli: Að minnast Guðs, hvort sem ég er einn eða í margmenni, að vera réttlátur hvort sem ég er argur eða ánægður, að vera hófsamur bæði í fátækt og ríkidæmi, að uppfylla ættingjaskyldur við þá sem hafa snúið baki við mér, að gefa þeim sem hafnar mér, fyrirgefa þeim sem gerir mér rangt til, að þögn mín sé fyllt íhugun, að augnaráð mitt sé áminnandi, og að ég fyrirskipi það sem rétt er.”

Samfélagsskyldur
Kenningar Íslams um samfélagslegar skyldur byggjast á góðvild og tillitssemi. Þar sem almennt orðuð hvatning um að vera góður gleymist hæglega þegar á reynir, leggur Íslam áherslu á tiltekin góðverk og skilgreinir rétt og skyldur ýmissa mannlegra tengsla. Þar koma fyrst skyldur okkar við nánustu fjölskyldu - foreldra, eiginmann eða eiginkonu og börn, síðan koma aðrir ættingjar, vinir og kunningjar, ekkjur og munaðar-leysingjar, þurfamenn í samfélaginu, trúsystkini okkar í Íslam og meðbræður okkar og systur almennt og sérhver sköpun.

Foreldrar
Íslam leggur ríka áherslu á virðingu og umhyggju fyrir foreldrum og er það stór þáttur af trúrækni múslímans:
“Herra þinn hefur krafizt þess að þú dýrkir engan annan en sig, og sért foreldrum þínum vænn. Komist þau á gamals aldur á þínum vegum, annað eða bæði, þá sýndu þeim aldrei vansæmd né átölur, heldur tala til þeirra með virðingu hlýjum orðum. Sýndu þeim auðmýkt og blíðu, og seg: “Herra, ver þeim miskunnsamur, svo sem þau ólu önn fyrir mér ungum.” (17,23-24.)

Aðrir ættingjar
“Gef ættingjum þínum það sem þeim ber, einnig snauðum mönnum og farandi, en sóaðu ekki eigum þínum af óspilsemi. (17,16.)

Nágrannar
Spámaðurinn sagði: “Það er ekki sannur trúmaður sem etur fylli sína meðan nágranni hans sveltur.” Hann sagði líka: “Ekki er sá trúmaður sem hrellir nágranna sína með móðgandi framferði.”

Samkvæmt Kóraninum og SUNNA (fordæmi spámannsins) ná siðferðisskyldur múslíma ekki aðeins til foreldra, ættingja og nágranna heldur mannkyns alls, dýra, trjáa og plantna. Veiði fugla og annarra dýra - í ánægju skyni eingöngu - er t.d. ekki leyfð í Íslam. Það er sömuleiðis bannað að fella tré og plöntur sem bera ávexti, nema brýna nauðsyn beri til.
Þannig reisir Íslam á undirstöðum almenns siðgæðis háleitar siðareglur, að mannkynið megi jafnan leitast við að efla siðferðisstyrk sinn til hins ýtrasta. Íslam hreinsar sálina af sjálfselsku, harðýðgi, léttúð og agaleysi, og elur af sér guðhrædda menn, trúa hugsjón sinni, bænrækna, bindindissama, agaða og falslausa í hvívetna. Íslam ýtir undir ábyrgðartilfinningu mannsins og kennir honum sjálfsstjórn. Ávöxtur Íslams er góðvild, örlæti, miskunnsemi, samkennd, friður, réttvísi og sanngirni gagnvart allri sköpun hvernig sem á stendur. Þessi trú dregur fram göfugar eigindir, sem aðeins góðs er af að vænta.
-------------------

Siðareglur í Íslam er þýðing á Moral System of Islam í ritröð um Íslam, sem gefin er út a WAMY (World Assembly of Muslim Youth) í Riyad, Saudi Arabíu.