Print

Lífið eftir dauðan

Written by Administrator. Posted in ROOT

Það er ekki á verksviði vísinda að fjalla um líf eftir dauðann, því þau fást eingöngu við rannsókn og skilgreiningu þess, sem skynfærin greina. Reyndar hafa menn ekki iðkað vísindarannsóknir í nútímamerkingu orðsins nema örfáar síðustu aldirnar, en vangaveltur um líf eftir dauðann hafa verið uppi frá ómuna tíð. Sérhver spámaður Guðs hvatti lýðinn til að tilbiðja Guð og trúa á líf eftir dauðann. Og þeir lögðu svo ríka áherslu á trúna á framhaldslíf að minnsti vafi þar um jafngilti því að afneita Guði og þar með varð öll trú fánýt. Sú staðreynd að allir spámenn Guðs hafa fjallað um þetta frum- spekilega viðfangsefni, líf eftir dauðann, með næstum sama hætti - þó árþúsusundir hafi liðið milli þeirra - bendir greinilega til þess að þeir sóttu vitneskju sína í sömu uppsprettu, þ.e. guðlega opinberun. Við vitum líka að þessir spámenn mættu jafnan harðri andstöðu, ekki síst fyrir boðskapinn um framhaldslífið, sem fólk neitaði að trúa á. En þrátt fyrir andstöðuna eignuðust spámennirnir marga trygga fylgjendur. Og hvað kom þessum fylgjendum svo til að snúa baki við trú og siðvenjum forfeðranna og eiga á hættu útskúfun samfélagsins? Svarið er einfalt: Þeir notuðu skilning hugar og hjarta og fundu sannleikann. - Uppgötvuðu þeir þá sannleikann með skynfærum sínum? Ekki var það svo enda er þess konar skynreynsla af framhaldslífi óhugsandi. En Guð hefur auk skilningarvitanna gefið manninum skyn rökhyggju, fegurðar og siðgæðis. Og það er það skyn sem leiðbeinir manninum í efnum sem ekki verða krufin af skilningarvitunum. Því er það sem allir spámenn Guðs hafa höfðað til fagurnæmis, rökhyggju og siðgæðisskyns þegar þeir boðuðu trú á Guð og framhaldslíf. Þegar skurðgoðadýrkendur Mekku vísuðu á bug öllu tali um framhaldslíf afhjúpaði Kóraninn haldleysi orða þeirra með markvissum rökum: “Þeir hafa gleymt sinni eigin sköpun og spyrja: “Hver skyldi geta fengið fúnum beinum líf að nýju?” Seg þú: “Hann sem í upphafi skóp þau, mun gefa þeim líf öðru sinni, Hann þekkir alla sem Hann hefur skapað; Hann sem tendrar yður eld af grænu tré, svo að þér fáið af honum kveikt í eldsneyti yðar.” Skyldi Hann, sem skapað hefur himna og jörð, skorta vald til að skapa þeirra líka? Það vald hefur Hann að sönnu. Hann er Skaparinn sem allt veit.” (36,78-81.)

Á öðrum stað sýnir Kóraninn fram á að vantrúaðir styðji ekki afneitun sína á framhaldslífi neinum haldbærum rökum, þar sé um einberar ágiskanir að ræða: “Þeir segja: “Þetta líf er hið eina líf. Vér lifum og deyjum; og tíminn einn gerir oss að engu.” Um þetta hafa þeir enga vitneskju. Þeir aðeins geta sér til um það. Og þegar þeim eru birt skýr teikn vor, þá er hin eina röksemd þeirra: “Færið oss aftur feður vora, ef það er satt sem þér segið.” (45,24-25.)

Vitaskuld mun Guð vekja upp hina dauðu, en Hann hefur sína ráðsályktun í öllum efnum. Sá dagur kemur að heimurinn og allt sem í honum er líður undir lok og dauðir verða upp vaktir til að standa frammi fyrir Guði. Það verður upphaf eilífs lífs og dagur reikningsskilanna þegar hver og einn fær laun í samræmi við gjörðir sínar, góðar og illar. Útskýring Kóransins á nauðsyn framhaldslífs samræmist siðgæðisvitund mannsins. Ef ekki væri neitt annað líf yrði sjálf guðstrúin markleysa, og jafnvel þótt menn tryðu á Guð væri sá Guð hvorki réttlátur né kærleiksríkur sem fyrst skapaði manninn en léti sig síðan engu varða örlög hans. En Guð er sannarlega réttlátur. Hann á eftir að refsa illvirkjum með ótal glæpi á samviskunni, þeim sem drepa hundruð saklausra manna, leiða spillingu yfir samfélög, og hneppa fólk í ánauðarfjötra til að þjóna eigin duttlungum - þeir eiga allir eftir að taka út refsingu sína. En líftími mannsins á jörðinni er stuttur og efnisheimurinn er ekki heldur eilífur, svo refsingar eða umbun í samræmi við gjörðir manna eru ekki mögulegar hér. Kóraninn tekur skýrt fram að dómsdagur muni renna upp og þá muni Guð skapa sérhverri sál örlög í samræmi við gjörðir hennar. “Hinir vantrúuðu fullyrða: “Stund Dómsins mun aldrei koma.” Seg þú: “Það veit Herra minn, sem þekkir alla leyndardóma, að hún kemur án alls vafa. Engin agnar ögn á himnum eða jörð fer fram hjá Honum. Hvað eina, smátt og stórt, er skráð á Hans Dýrlegu Bók. Hann mun launa þeim sem trúa og góð verk vinna, þeir hljóta fyrirgefningu og vel mun fyrir þeim séð. En þeir sem leggja sig fram um að hrekja opinberanir vorar, munu þola kvalir skelfilegrar refsingar.” (34,3-5) Á degi upprisunnar opinberast réttlæti Guðs og miskunn í allri sinni dýrð. Þá mun Guð umvefja þá miskunn sinni sem þjáðust fyrir trú sína í jarðlífinu og væntu eilífrar sælu að því loknu. En þeir sem misnotuðu gjafir Guðs og skeyttu engu um komandi líf eiga ömurlegt hlutskipti í vændum. Kóraninn ber þetta saman í eftirfarandi versi: “Hvort mun sá, sem Vér höfum gefið gott og fagurt loforð, og sér það efnt, líkur þeim sem Vér höfum gefið þægindi þessa lífs og verður kvaddur fyrir Dóm á Degi Upprisunnar?” (28,61.) Kóraninn segir enn fremur að jarðlífið sé aðeins undirbúningur eilífs lífs eftir dauðann. En þeir sem afneita framhaldslífi verða þrælar ástríðna sinna og girnda og henda gys að trúuðum. Villa slíkra rennur fyrst upp fyrir þeim á banabeði, þegar þeir óska þess heitt - en árangurslaust - að fá annað tækifæri á jörðinni. Vesöld þeirra á dauðastundinni, skelfingum dómsdags - og á hinn bóginn þeirri eilífu sælu sem guðstrúarmenn eiga í vændum - er lýst í eftirfarandi versum: “Þegar dauðinn vitjar syndara, segir hann: “Herra, lát mig snúa aftur, svo ég geti unnið góð verk í þeirri veröld sem ég hef horfið frá.” Nei, hann mælir innantómum orðum. Að baki rís ókleifur veggur unz Dagur Upprisunnar rennur. Og þegar Lúðurinn er þeyttur á þeim degi, eru öll ættarbönd rofin, og enginn beiðist hjálpar af öðrum. Og þeir sem fyllt hafa vogarskál sína af góðum verkum, munu sigur fá. En sé skál þeirra létt, hafa þeir glatað sálu sinni, og hljóta í Víti eilífa vist; logar þess munu brenna ásjónu þeirra, og þeir munu engjast af kvölum. (23,99-104.) Trú á líf eftir dauðann gefur ekki aðeins fyrirheit um velfarnað í næsta lífi, en fyllir jafnframt þetta líf friði og hamingju með því að efla með manninum ábyrgð og skyldurækni í athöfnum sínum. Lítum til arabanna. Veðmál, víndrykkja, ættbálkaerjur, rán og morð voru daglegt brauð þeirra meðan þeir trúðu ekki á annað líf. En um leið og þeir tóku trú á Einn Guð og líf eftir dauðann urðu þeir ein agaðasta þjóð heimsins. Þeir létu af löstum sínum, hjálpuðu hver öðrum þegar á þurfti að halda, og leystu deilumál sín á grundvelli réttlætis og jafnaðar. Og á sama hátt hefur afneitun framhaldslífsins ekki aðeins afleiðingar handan grafar heldur líka hérna megin. Þegar heilt samfélag afneitar framhaldslífi verða glæpir og hvers konar spilling allsráðandi uns samfélagið verður eyðileggingunni algjörlega að bráð. Kóraninn lýsir skelfilegum endalokum Áðunga, Tamýðinga og Faraós í eftirfarandi versum:

“Tamúð og Áð afneituðu Hinzta dómi. Skelfilegt rok gerði út af við Tamýðinga, og Áðungum tortímdi fárviðri, sem Hann lét dynja á þeim sjö nætur og átta daga samfleytt. Þú hefðir getað séð þá liggja dauða eins og hola pálmaviðarboli. Sérðu nokkurn þeirra enn á lífi?

Faraó og þeir sem á undan honum voru, og íbúar hrundu borganna, drýgðu einnig synd og óhlýðnuðust sendiboða Herra síns. Þess vegna beitti Hann þá harðri refsingu.

Þegar Flóðið Mikla tóka að stíga, bárum Vér yður í Örkina og gerðum hana að áminningu til yðar og að frásögn til varðveizlu glöggum eyrum.

Þegar Lúðurinn gellur, þegar jörðinni með fjöllum sínum öllum er lyft hátt, og hún er moluð í duft með einu miklu höggi, á þeim degi dynja ósköpin yfir.

Þann dag mun himinninn rofna riðandi til falls, og englarnir munu standa á allar hliðar, og átta þeirra bera hásæti Herra þíns yfir höfði sér. Á þeim degi verðið þér leiddir fyrir Hann, og öll leyndarmál yðar verða leidd í ljós.

Sá sem fær bók sína í hægri hönd mun segja: “Takið við, og lesið. Það vissi ég reyndar að mér yrði stefnt til reikningsskapar.” Hann mun njóta sældarlífs í háum garði með ávaxtaklasa innan seilingar. Vér segjum við hann: “Et og drekk svo sem hjarta þitt lystir. Þetta eru laun þín fyrir það sem þú hefur gert á liðnum dögum.” En sá sem fær bók sína í vinstri hönd mun segja:”Ó, að ég hefði ekki fengið bók mína, og vissi ekkert um mín reikningsskil! Betur að dauði minn hefði orðið endir alls! Auðæfi mín koma mér að engu gagni, og ég er sviptur valdi mínu.”” (69,4-39.)

Það eru því afar sannfærandi ástæður til að trúa á líf eftir dauðann:

1. Allir spámenn Guðs hvöttu menn til að trúa á það.
2. Ávallt þegar mannlegt samfélag er grundvallað á þeirri trú hefur það reynst réttvíst og friðsælt, og laust við félagsleg og siðferðileg mein.
3. Mannkynssagan sannar að hvenær sem þessari trú hefur verið hafnað af samfélaginu í heild þrátt fyrir endurteknar viðvaranir spámanns þess, hefur refsing Guðs komið yfir það samfélag, jafnvel í þessu lífi.
4. Rökhyggja mannsins, fagurnæmi hans og siðgæðisskyn samsinnir allt lífi eftir dauðann.
5. Réttlæti Guðs og miskunn Hans verða merkingarlaus ef ekki er líf að loknu þessu.


----------------------------

Lífið eftir dauðann er þýðing á Life after Death í ritröð um Íslam sem gefin er út af WAMY (WORLD Assembly of Muslim Youth) í Riyad, Saudi Arabíu.