Print

Islam í stuttu máli

Written by Administrator. Posted in ROOT

Íslam og múslímar
Arabíska orðið Íslam merkir friður, undirgefni og hlýðni. Að vera íslamstrúar táknar að játast undir kenningar og leiðsögn Guðs eins og þær opinberuðust Múhammeð spámanni. Múslími er sá sem trúir á Guð og leitast við að haga lífi sínu í samræmi við hina opinberuðu leiðsögn Guðs og orð spámannsins. Hann reynir jafnframt að treysta mannlegt samfélag á sama grunni. “Múhammeðstrú” er rangnefni á Íslam og móðgun við anda þeirrar trúar.

Órofa samhengi
Íslam er ekki ný trúarbrögð heldur í grundvallaratriðum sami boðskapur og leiðsögn og guðdómurinn opinberaði öllum spámönnum sínum. “Seg þú: “Vér trúum á Guð og það sem oss er opinberað og það sem opinberað var Abraham og Ísmael, Ísak og Jakob og ættkvíslunum, og það sem Guð gaf Móse og Jesú og öðrum spámönnum. Vér gerum eigi greinarmun á neinum þeirra, Honum höfum vér gengið á hönd.”” (Kóraninn, 3,84). Boðskapurinn sem opinberaðist Múhammeð spámanni er Íslam í sinni fullkomnu og endanlegu mynd.

Fimm stoðir Íslams
Íslam hefur fimm burðarstoðir. 1. Trúarjátning: Að játa að enginn sé verður tilbeiðslu nema Guð og að Múhammeð sé sendiboði hans til gjörvalls mannkyns allt til dómsdags. Spámannshlutverk Múhammeðs skyldar múslíma til að taka líf hans og breytni sér til fyrirmyndar.
2. Bænir: Daglegu bænirnr eru beðnar fimm sinnum á dag. Þær styrkja og endurnæra trúna á Guð og blása manninum í brjóst hvöt til háleits siðgæðis. Þær hreinsa hjartað og hindra freistingar til ranginda og illgjörða.
3. Ölmusa (fátækraskattur): Að gefa árlega tiltekinn hluta af eigum sínum til fátækra og hjálparþurfi í samfélaginu.
4. Fasta í Ramadanmánuði: Fasta múslíma í Ramadan- mánuði einskorðast ekki við að neita sér um mat, drykk og kynlíf frá dögun til sólarlags, heldur jafnframt að halda sér frá sérhverri illri gjörð eða girnd. Fastan er lærdómur kærleika, einlægni og guðrækni. Hún þroskar heilbrigða samkennd, þolinmæði, óeigingirni og viljastyrk. 5. Pílagrímsferð til Mekku: Hana á að fara einu sinni á ævinni ef fjárhagur og heilsa leyfa.
Auk stoðanna fimm er sérhvert verk, sem unnið er í þeirri vissu að það sé Guði þóknanlegt, talið guðsdýrkun.


Tign Guðs
Íslam boðar trú á einn og almáttugan Guð. Þessi trú gerir manninum ljósan tilgang jarðneskrar tilveru og stöðu mannsins þar. Hún leysir hann undan ótta og hjátrú með því að gera honum ljósa nærveru hins almáttuga Guðs og um leið skyldur mannsins við Hann. Þessa trú ber manninum að sýna í verkum sínum, trúin ein er ekki nóg. Að trúa á einn Guð felur í sér að við lítum á mannkyn allt sem eina fjölskyldu undir alheimsveldi Guðs, skaparans og gjafara allra gæða. Íslam hafnar hugmyndum um útvaldar þjóðir, aðeins guðstrú og góð breytni veita aðgang að Paradís. Þannig er beinu sambandi komið á við Guð án allra meðalgöngumanna. Guð er ekki aðeins skapari mannsins og alheimsins. Hann er líka löggjafinn, leiðbeinandinn og sá sem dæmir. Allir menn eiga eftir að standa honum reikningsskap gjörða sinna. Þeir sem fylgja sannleika og réttlæti fá laun, en þeir sem aðhyllast lygar og ranglæti fá refsingu. Guð hlustar á bænir mannanna og leiðir þá sem leita Hans á réttan veg. Guð er náðugur og miskunnsamur. Hver sem leitar fyrirgefningar Guðs af einlægni getur byrjað nýtt líf.

Maðurinn og frjálsi viljinn Maðurinn er kórónan á sköpunarverki Guðs. Honum hefur verið fengið visst frelsi til ákvarðana, athafna og vals. Guð hefur sýnt honum rétta veginn og líf Múhammeðs spámanns er hin fullkomna fyrirmynd. Velgengni og heill mannsins eru í því fólgin að fylgja hvorutveggja. Íslam boðar friðhelgi manneskjunnar og veitir öllum jafnan rétt án tillits til kynþáttar, kynferðis eða húðlitar. Orð Guðs, eins og Kóraninn boðar þau og spámaðurinn lifði þau, eru lög í öllum tilvikum. Þau gilda jafnt fyrir háa og lága, kónginn og kotbóndann, yfirboðarann og undirsátann.

Kóraninn og hadíðurnar

Kóraninn er síðasta opinberun Guðs og grundvöllur íslamskra kenninga og laga. Í honum er fjallað um trúarreglur, siðferði, sögu mannkynsins, tilbeiðslu, þekkingu, visku, sambandið milli Guðs og manns og mannleg samskipti á öllum sviðum. Alhliða fræðsla til að byggja á heilbrigð kerfi félagslegs réttlætis, hagfræði, stjórnmála, lagasetninga, réttarreglna og alþjóðlegra samskipta - allt eru þetta líka mikilvægir þættir í Kóraninum. Múhammeð var sjálfur ómenntaður maður sem kunni ekki að lesa eða skrifa. Fylgjendur hans skráðu Kóraninn og lærðu eftir tilsögn hans meðan hann lifði. Frumtexti Kóransins er öllum aðgengilegur á arabísku, tungumálinu sem hann opinberaðist á. Þýðingar á merkingu orðanna hafa verið gerðar á ótal tungumál. “Hadíður” eru fræðsla um tilsvör og gjörðir Múhammeðs spámanns. Þær voru nákvæmlega skráðar af fylgjendum hans.

Hvað er guðsdýrkun?
Íslam kennir ekki né viðurkennir trúarathafnir einar sér, það leggur áherslu á ásetning og gjörðir. Að dýrka Guð er að þekkja Hann og elska Hann, fara að lögum Hans í sérhverju tilviki lífsins, að hvetja til góðra verka en banna illvirki og yfirgang, að iðka kærleika og réttlæti og þjóna Guði með því að þjóna mannkyninu. Kóraninn gerir grein fyrir slíkri guðsdýrkun á eftirfarandi hátt: “Það varðar ekki guðrækni, hvort ásýnd er snúið til austurs eða vesturs. Guðrækinn er sá sem trúir á Guð og hinn Efsta Dag, á englana, Ritningarnar og spámennina, og gefur, af ást á Guði, eigur sínar ættingjum, munaðarlausum og fátækum, förumönnum og ölmusu- mönnum, og til lausnar föngum, og sá sem rækir bænir sínar og geldur fátækraskatt, sá sem stendur við loforð sín og er þrautgóður í raun, og í mótlæti, og á stríðstímum. Þessir eru að sönnu guðræknir og slíkir eru hinir réttlátu.” (2.177).

Íslamskur lífsmáti
Íslam leggur manninum ákveðnar lífsreglur að fara eftir á vegferð sinni. Leiðsögnin er alhliða og nær til allra þátta lífsins, bæði félagslegra, efnahagslegra, siðferðislegra og andlegra. Kóraninn minnir á tilgang mannlífsins á jörðunni, skyldur mannsins og kvaðir gagnvart sjálfum sér, ættingjum sínum og vinum, samfélaginu, meðbræðrum og skapara sínum. Maðurinn fær undirstöðuleiðsögn um stefnufast líferni og stendur andspænis þeim brýna vanda mannlegrar tilveru að gera þær hugsjónir að veruleika. Í Íslam er litið á lífið sem samfellda heild en ekki safn ósamstæðra brota í innbyrðis togstreitu. Andlegt og veraldlegt eru ekki tveir sundir skildir þættir af eðli mannsins heldur samofnir.

Sögulegt yfirlit
Múhammeð spámaður fæddist árið 570 e.Kr. í borginni Mekku í Arabíu. Hann meðtók fyrstu opinberunina fertugur að aldri. Um leið og hann hóf að boða Íslam sætti hann og fylgjendur hans grimmilegum ofsóknum. Á aðeins 23 árum lauk hann köllunarverki sínu sem spámaður og dó 63 ára gamall. Hann lifði lýtalausu lífi og varð fyrirmynd allra manna, því líf hans og breytni var endurspeglun á kenningum Kóransins.

Aðdráttarafl Íslams
Hin hreina og beina útlistun Íslams á sannleikanum hefur gífurlegt aðdráttarafl á hvern þann sem þekkingar leitar. Þar er að finna lausn á öllum vandamálum tilverunnar. Í Íslam er leiðsögn til betra og auðugra lífs, þar sem Guð, hinn almáttugi skapari og miskunnsami gjafari, er vegsamaður í öllum greinum. Árið 1975 var fjöldi múslíma í heiminum á milli átta og níu hundruð milljóna, en þeim fjölgar stöðugt og eru þeir nú komnir yfir milljarð. Þjóðlönd með múslíma í meirihluta eru 58 talsins.

Íslam - lausn á vandamálum nútímans Bræðralag manna: Höfuðvandamál tuttugustu aldarinnar eru kynþáttafordómar. Efnaðri þjóðirnar geta sent menn til tunglsins, en þeim er um megn að uppræta hatur og stríð milli manna. Íslam hefur sýnt í verki undanfarin 1400 ár hvernig vinna má bug á kynþáttafordómum. Ár hvert, í Hadj-pílagrímsförinni, getur að líta íslamska kraftaverkið; raunverulegt bræðralag manna af öllum kynþáttum og öllu þjóðerni. Fjölskyldan: Fjölskyldan - hornsteinn menningarinnar - er í upplausn meðal vestrænna þjóða. Í hinni íslömsku fjölskyldu er réttur eiginmanns og eiginkonu, barna og ættingja í fullkomnu jafnvægi. Íslam eflir kærleika, örlæti og fórnfýsi á traustum vettvangi fjölskyldunnar.

Heildstæð lífsviðhorf Maðurinn lifir og breytir í samræmi við lífsviðhorf sín. Sorgarsaga margra nútímaþjóðfélaga er tilkomin af vanmætti þeirra til að tengja saman mismunandi svið lífsins. Hið veraldlega og trúarlega, það vísindalega og andlega virðast eiga í togstreitu. Íslam bindur enda á þá togstreitu og kemur á samræmi í lífsskoðunum manna.

----------------------------------------------------------------------

Íslam í stuttu máli er þýðing á Islam at a glance úr ritröð um Íslam, sem gefin er út af WAMY (World Assembly of Muslim Youth) í Riyad, Saudi Arabíu.

Ritröð um Íslam
Nr. 1