Print

Spámannsköllun í Íslam

Written by Administrator. Posted in ROOT

Spámannsköllunin er vel þekkt innan trúarbragða, svo sem í gyðingdómi og kristni. En í Íslam hefur þessi köllun sérstaka merkingu og vægi.Samkvæmt Íslam skapaði Guð manninn í göfugu markmiði: Hann skyldi dýrka Guð og lifa grandvöru lífi eftir kenningu Hans og leiðsögn. En hvernig átti maðurinn að skilja hlutverk sitt og tilgang án þess að fá um það skýrar og hagnýtar leiðbeiningar til hvers Guð ætlaðist af Honum? Þar er hlutverk spámanna. Guð hefur því útvalið einn eða fleiri spámenn hjá hverri þjóð til að flytja lýðnum boðskap sinn. Nú mætti spyrja: Hvernig voru þessir spámenn valdir - hverjir hlutu þennan heiður?
Spámannsköllunin er blessun og náð frá Guði, sem Hann veitir þeim sem Honum þóknast. En ef við lítum á sendiboða sögunnar tökum við eftir þrennu sem einkennir spámann:
1. Hann skarar fram úr öðrum mönnum í siðferðilegum og andlegum efnum. Það verður svo að vera vegna þess að spámaðurinn á að vera fordæmi fylgjenda sinna og persónuleiki hans þarf að laða fólk að boðskapnum en ekki hrekja frá honum Eftir að hafa tekist spámannshlutverkið á hendur er hann óskeikull í þeim skilningi að hann mundi ekki drýgja synd. Hann gæti gert minni háttar mistök, sem venjulega eru leiðrétt með opinberunum.
2. Hann fær styrk af kraftaverkum til að sanna að hann fari ekki með blekkingar. Þessi kraftaverk gerast fyrir kraft og vilja Guðs og eru vanalega á sviði þar sem þjóð spámannsins skarar fram úr. Við sjáum þetta ef við athugum kraftaverk þriggja spámanna helstu trúarbragðanna, gyðingdóms, kristni og Íslams. Samtímamenn Móse voru kunnir fyrir töfra og fjölkynngi, svo eitt helsta kraftaverk Móse var að bera sigurorð af fremstu töframönnum Egyptalands. Samtíðarmenn Jesú voru vel að sér í lækningafræði og því sneru kraftaverk hans að því að vekja menn frá dauðum og lækna ólæknandi sjúkdóma. Arabarnir, samtíðarmenn spámannsins höfðu orð á sér fyrir stórkostlega mælskulist og ljóðsnilld. Höfuðkraftaverk Múhammeðs var Kóraninn, sem enginn úr fjölmennri sveit skálda né orðsnillinga gat keppt við, - þrátt fyrir áskoranir til þeirra í Kóraninum að spreyta sig á því. Kraftaverk Múhammeðs hefur sérstöðu. Kraftaverk fyrri spámanna voru bundin ákveðnum stað og tíma og gerð fyrir tiltekið fólk við ákveðnar aðstæður; en um kraftaverk Múhammeðs, Kóraninn, gegnir öðru máli. Hann er ævarandi allsherjar kraftaverk. Fyrri kynslóðir urðu vitni að því og kynslóðir framtíðarinnar munu halda áfram að lifa þetta stórkostlega kraftaverk stíls, innihalds og andlegrar upphafningar, sönnun guðlegs uppruna Kóransins.
3. Sérhver spámaður tekur skýrt fram að boðskapurinn sé ekki frá honum sjálfum kominn heldur Guði, mannkyni til heilla. Jafnframt staðfestir hann það sem opinberað var fyrir hans tíma og það sem kynni að opinberast eftir hans dag. Með þessu sýnir spámaðurinn að hann er einungis að flytja boðskap sem honum var falinn af hinum eina sanna Guði allra manna á öllum tímum. Boðskapurinn er þannig samhljóma í eðli sínu, enda er markmið hans hið sama. Hann á því ekki að víkja frá því sem áður var opinberað eða á eftir kemur.
Spámenn eru þannig nauðsynlegir til að flytja mannkyni fyrirmæli og leiðsögn Guðs. Við getum ekki sagt okkur sjálf hví við vorum sköpuð. Hvað verður um okkur eftir dauðann? Er líf eftir dauðann? Þurfum við að standa reikningsskil gjörða okkar? Með öðrum orðum: eru einhver laun eða refsing fyrir verk okkar í þessu lífi? Þessum og ótal fleiri spurningum er engin leið að svara án beinnar opinberunar frá Skapara alheimsins. Svörin þurfa að vera óyggjandi og flutt okkur af mönnum sem við treystum og virðum. Þess vegna eru spámenn úrvalsmenn samfélagsins í siðferðilegum og andlegum efnum. Og þess vegna fallast múslímar ekki á ýmsar ærumeiðandi frásagnir Biblíunnar um nokkra mikla spámenn. Lot er t.d. sagður hafa drýgt blóðskömm með dætrum sínum drukkinn, og um Davíð er sagt að hann hafi sent einn herforingja sinn í dauðann til að geta gengið að eiga konu hans. Spámenn eru stórmannlegri í augum múslíma en af frásögnum þessum yrði ráðið og samkvæmt Íslam geta þær ekki verið sannar.

Spámennirnir fá einnig kraft frá Guði og fyrirmæli um órofa samhengi boðskaparins. Inntakið í boðskap spámannanna er í stuttu máli:
a) Skýr Guðshugmynd, eigindir Guðs, sköpun Guðs,og hvað skuli eigna Honum og hvað ekki.
b) Skýr hugtök um ósýnilega heiminn, englana, jinnana (andana), Paradís og Víti.
c) Útskýring á því hvers vegna Guð skapaði okkur, hvers Hann væntir af okkur og hver eru launin eða refsingin fyrir að hlýðnast Honum eða óhlýðnast.
d) Hvernig beri að stjórna samfélaginu í samræmi við vilja Guðs, þ.e. skýr og ákveðin fyrirmæli og lagaboð, sem leiði til farsæls og góðs mannlífs.
Ljóst er af því sem hér er sagt, hvert hlutverk spámannsins er og að ekkert gat komið í hans stað. Jafnvel á vorum dögum háþróaðra vísinda er opinberunin eina trúverðuga heimild okkar um heiminn handan þessa heims. Aðra leiðsögn er hvergi að hafa, hvorki frá vísindum né fyrir atbeina dulrænnar reynslu. Hið fyrrnefnda er of efnislegt og takmarkað, hið síðarnefnda of óraunverulegt og oft villandi.
Hvað hefur Guð þá sent mannkyninu marga spámenn? Það vitum við ekki með vissu. Sumir íslamskir guðfræðingar hafa nefnt töluna 240.000. Það eina sem við vitum með fullri vissu eru skýr orð Kóransins sem segja að Guð hafi sent sérhveri þjóð einn spámann eða fleiri. Það er óbrigðul regla Guðs að hann kallar aldrei þjóð til reikningsskapar, nema Hann hafi fyrst gert henni ljóst hvernig hún skuli breyta og hvernig ekki. Kóraninn nafngreinir 25 spámenn og segir jafnframt að fleiri ónafngreindir hafi verið uppi á undan Múhammeð. Meðal þessara 25 eru Nói, Abraham, Móses, Jesús og Múhammeð. Þessir fimm eru helstu spámenn Guðs og nefndir “staðföstu spámennirnir”.
Athyglisvert atriði varðandi spámannsköllunina í Íslam er að múslímar verða að virða og viðurkenna alla spámenn Guðs og mega þar enga undantekningu gera. Þar sem spámennirnir voru allir sendir af einum og sama Guði og í einum og sama tilgangi - sem sé að beina mannkyninu á Guðs veg - er hollusta við þá alla nauðsynleg og rökrétt. Að viðurkenna aðeins suma en hafna öðrum hlýtur að byggjast á annað hvort misskilningi á hlutverki spámannsins eða kynþáttafordómum. Múslímar eru eina trúarsamfélagið sem lítur á viðurkenningu allra spámanna sem grundvallarkennisetningu. Gyðingar hafna Jesú Kristi og Múhammeð, kristnir menn hafna Múhammeð, og hafna í reynd einnig Móse því þeir fara ekki eftir lögmáli hans. Múslímar viðurkenna alla spámenn sem sendiboða Guðs er sent hafi mannkyni leiðsögn þó sumar opinberanir þessara spámanna hafi verið affærðar á ýmsa lund. En trúin á þá alla sem spámenn Guðs er skylda sem Kóraninn krefst af múslímum: “Segið: “Vér trúum á Guð og það sem oss er opinberað; vér trúum því sem var opinberað Abraham, Ísmael, Ísak, Jakob og kynkvíslum Ísraels, því sem gefið var Móse og Jesú og öðrum spámönnum. Á þeim gerum vér engan greinarmun, og vér höfum gefizt Guði á vald. (2,136.)
Kóraninn heldur áfram í versunum á eftir að brýna fyrir múslímum að þetta sé hin sanna og óvilhalla trú. Ef aðrar þjóðir trúi því sama séu þær á réttri braut. En hafni þær trúnni fylgi þær eigin duttlungum og fordómum og eigi um það við Guð: “Ef þeir taka trú yðar, þá eru þeir á réttri leið. En hafni þeir henni, þá valda þeir sundrungu. Þá mun Guð vera þér næg vörn gegn þeim. Hann heyrir allt og veit allt. Vér tökum skírn frá Guði, og hver skírir betur en Guð? Hann einan tignum vér.” (2,137-138.)
Það eru a.m.k. tvö mikilvæg atriði í sambandi við spámannsköllun sem þarf að gera ljós. Þessi atriði varða spámannshlutverk Jesú og Múhammeðs og hafa iðulega verið misskilin. Í frásögnum Kóransins af Jesú er hugmyndum um “guðdóm” hans og að hann hafi verið “guðssonur” algjörlega hafnað og sagt að hann sé einn hinna miklu spámanna Guðs. Kóraninn sýnir fram á að fæðing Jesú án föður geri hann ekki að syni Guðs, og bendir í því sambandi á Adam, sem Guð skapaði án föður og móður: “Jesús er sem Adam í augum Guðs. Hann skóp hann af dufti og mælti til hans: “Þú skalt verða!” og hann varð.” (3,59.)
Eins og aðrir spámenn gerði Jesús kraftaverk. Hann reisti frá dauðum og læknaði blinda og holdsveika. En þegar hann gerði þessi kraftaverk útskýrði hann ávallt að allt væri það frá Guði komið. Ranghugmyndir um persónueðli og köllun Jesú urðu til meðal fylgjenda hans vegna þess að sá guðlegi boðskapur sem hann prédikaði var ekki skráður meðan hann var hér á jörðinni, og ekki fyrr en tæpri öld síðar. Samkvæmt Kóraninum var hann sendur til Ísraelslýðs, hann staðfesti lögmálið (Tóra), sem var opinberað Móse, og hann flutti einnig fagnaðarboðskap um síðasta sendiboðann sem kæmi á eftir honum sjálfum:
“Og segðu af Jesú syni Maríu, sem talaði til Ísraelsmanna og mælti: “Guð hefur sent mig til þess að staðfesta Lögmálið, sem þegar er opinberað, og til þess að flytja þau tíðindi, að eftir mig kemur sendiboði að nafni Ahmeð.” (6.6.) (Ahmeð er nafn Múhammeðs spámanns.) En meirihluti gyðinga hafnaði kennivaldi hans. Þeir sóttust eftir lífi hans og álitu sig krossfesta hann. Kóraninn mótmælir þeirri kenningu og segir þá hvorki hafa drepið hann né krossfest, heldur að hann hafi verið hafinn upp til Guðs. Í Kóraninum er vers þar sem segir að Jesús muni koma aftur og að allir kristnir menn og gyðingar muni taka trú á hann áður en hann deyr. Þetta er í samræmi við orð (hadíður) Múhammeðs spámanns. Múhammeð spámaður Guðs fæddist í Arabíu á sjöttu öld e.Kr. Fram að fertugu þekktu íbúar Mekku hann aðeins sem afar heilsteyptan og siðfágaðan mann og kölluðu hann AL AMÍN (hinn trúverðuga). Sjálfur vissi hann ekki heldur að innan skamms myndi hann hljóta spámannsköllun og meðtaka opinberanir frá Guði. Síðar kallaði hann s kurðgoðadýrkendur Mekku til að tilbiðja hinn eina sanna Guð og viðurkenna sig sem spámann Hans. Þær opinberanir sem hann fékk lærðu fylgismenn hans utanbókar meðan hann var á lífi og þær voru sömuleiðis skráðar á pálmablöð, leður og annað tiltækt. Þannig er Kóraninn, eins og hann birtist nú á dögum, nákvæmlega samhljóða opinberuninni og ekki hefur verið breytt stafkrók, því Guð sjálfur ábyrgðist varðveislu hans. Þessi Kóran gerir tilkall til að vera bók leiðsagnar fyrir mannkyn allt á öllum tímum og segir að Múhammeð sé síðasti spámaður Guðs.Spámannsköllun í Íslam er þýðing á Prophet Call in Islam úr ritröð um Íslam sem gefin er út af WAMY (World Assembly of Muslim Yyouth) í Riyad, Saudi Arabíu.